RÓMAVELDI
Fall Heimsveldis
Forsaga Rómaveldis
Á 9. og 8. öld f. Kr. voru Etrúrar langmerkastir þjóða þeirra á Ítalíu, sem töluðu ekki indóevrópskt tungumál. Margt er enn mjög á huldu um uppruna þeirra. Ekki hefur tekist að sanna, að tunga þeirra sé skyld neinum öðrum tungumálum sem nú eru kunn. Margt bendir til að Etrúrar hafi snemma á öldum flutst frá Vestur–Asíu til Ítalíu. Þó eru til fræðimenn sem telja að þeir hafi búið um langan aldur á Ítalíu áður en sögu hófust. Héraðið umhverfis Róm var nefnt Latíum og íbúarnir kölluðu sig Latverja og voru Rómverjar ein grein þeirra. Þeir voru Indó-Evrópumenn eins og aðrar þjóðir á Ítalíu að undanskildum Etrúrum sem bjuggu fyrir norðan Latverja.
Róm var byggð á sjö hæðum við ána Tíber um 30 km frá ósum hennar. Við ósana var síðar byggð Ostia, hafnarborg Rómar. Róm var nyrst í Latíum, örskammt frá suðurmörkum Etrúríu. Á þessu tímabili var konungstjórn í Róm en annars er margt mjög á huldu um sögu og þjóðfélagsskipun Rómverja á þessu tíma. Lítill vafi er á því að síðustu konungarnir í Róm voru af Etrúrskum ættum. Við hlið konungs starfaði öldungaráð (senatus). Í því sátu 300 menn (senatores), fulltrúar hinna fornu ætta. Auk þess voru á konungaöldinni í Róm þjóðfundir (comitia curiata) og var mönnum þar skipt eftir ættum. Konungar munu hafa verið kosnir á þessum fundum í samráði við öldungaráðið.

Síðustu konungarnir í Róm lögðu undir sig margar nágrannasveitir í Latíum. Þeir víggirtu borgina og prýddu hana á ýmsa vegu. Síðasti konungur Rómverja var Tarquinius Superbus (hinn harðráði). Hann var Etrúri. Hann gerði tilraunir til að brjóta ofurvald patriciar (stórlandeigendur) á bak aftur með því að styðja plebeiar (handverksmenn og smákaupsmenn) gegn þeim. Þetta tókst ekki. Patriciar ráku hann frá völdum árið 510 f. Kr. og þá varð Róm lýðveldi. Sú stjórnskipun hélst í næstum fimm aldir.

